Kísilstarfsemi á vegum þýska fyrirtækisins PCC, sem er að megninu til kísilverið á Bakka, var rekið með 45 milljóna evra halla á síðasta ári, eða sem nemur 6,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýútgefnum ársreikningi PCC.
Kísilstarfsemin var keyrð á fullum afköstum nánast allt árið 2024. Tekjurnar jukust um 18 prósent milli ára og EBT, rekstrarhagnaður fyrir skatta, batnaði um meira en 30 milljónir evra. En þrátt fyrir bata var niðurstaðan enn sem áður verulegur halli upp á 45 milljónir evra.
„Það er ljóst frá sjónarhóli PCC Group að fjárhagsleg frammistaða starfseminnar er ekki ásættanleg. Framleiðslukostnaður hélst hár og aðstæður á markaði voru áfram erfiðar,“ segir í uppgjörinu.
Sú snarpa hækkun sem varð á kísilverði á seinni helmingi árs 2021 og kom rekstrinum réttum megin við núllið um skamma hríð gekk fljótt til baka. Síðan þá hefur samkeppnisþrýstingur frá Kína haldið verðinu lágu.

Í ljósi þess var tekin ákvörðun í febrúar um „yfirgripsmikinn aðgerðapakka“ í samráði við utanaðkomandi ráðgjafa.
„Til viðbótar við útskiptingu á starfsfólki í lykilstöðum hefur þetta í för með sér endurskoðun á hlutverkum og ábyrgð þar markmiðið er að fækka tengipunktum innan fyrirtækisins og ná fram frekari skilvirkni í ferlum með tilliti til stöðugleika í framleiðslu. PCC gerir ráð fyrir að áhrifin byrji að koma í ljós á öðrum ársfjórðungi.“
Kísilverið vinnur nú að því að auka framleiðslugetu á hágæðakísil þannig að unnt sé að fá hærri verð á markaði. Til lengri tíma litið, segir í uppgjörinu, ætti markaðsetning á hágæðakísil að hafa fjárhagslega jákvæð áhrif á starfsemina. PCC á ríflega 65 prósenta hlut í kísilverinu á móti íslenskum lífeyrissjóðum.
Eftir birtingu fréttarinnar barst eftirfarandi fréttatilkynning frá PCC:
PCC SE hefur hrint af stað umbótaverkefni hjá dótturfélagi sínu, PCC BakkiSilicon hf., og fengið alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Alvarez & Marsal til samstarfs um verkefnið. Markmið verkefnisins er að bæta rekstur PCC BakkiSilicon hf. en félagið rekur kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík.
Kári Marís Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri PCC BakkiSilicon hf. til að leiða verkefnið. Kári hóf störf hjá félaginu í nóvember 2023 sem yfirmaður stefnumótunar, en hann býr yfir 15 ára reynslu úr kísiliðnaðinum, meðal annars sem framkvæmdastjóri og framleiðslustjóri hjá Elkem. Kísilmálmverksmiðja PCC BakkiSilicon hf., sem hóf rekstur seint á árinu 2018, er sú nýjasta sinnar tegundar sem byggð er frá grunni í Evrópu.
Verksmiðjan nýtir endurnýjanlega jarðvarmaorku frá Þeistareykjum og telst með fremstu verksmiðjum heims hvað varðar tækni, sjálfbærni og lítið kolefnisspor. Hins vegar eru miklar áskoranir á heimsmarkaði með kísilmálm vegna innflutnings á niðurgreiddum kísilmálmi, einkum frá Kína til Evrópu.
Sá málmur uppfyllir hvorki umhverfis - né samfélagsleg viðmið og auk þess sem kolefnisspor hans er stórt. Þessi þróun ógnar framtíð evrópsks kísilmálmiðnaðar, sem hingað til hefur staðið á eigin fótum og er mikilvægur hluti af sjálfstæðum iðnaði og aðfangakeðjum i Evrópu.