Beint í umfjöllun

Hrein ný verðtryggð lán námu 43 milljörðum króna í október og er það langhæsta upphæð sem sést hefur á síðustu 10 árum, eða eins langt aftur og gögn Seðlabanka Íslands ná. Að mati seðlabankastjóra er hins vegar möguleiki á því að verðtryggðir vextir verði ekki endilega „framhjáleið“ þegar fram í sækir.

Stóran hluta af aukningu verðtryggðra lána, um 23 milljarða króna, má rekja til ásóknar heimila en á sama tíma greiddu þau upp óverðtryggð lán í miklum mæli. Annan mánuðinn í röð voru nýjar óverðtryggðar lánveitingar til heimila neikvæðar um 15 milljarða króna.

Nokkur hluti þeirra óverðtryggðu íbúðalána, sem veitt voru á árunum 2020 og 2021, var með föstum vöxtum til ýmist þriggja eða fimm ára á umtalsvert hagstæðari kjörum en bjóðast í dag. Endurskoðun vaxta nær til óverðtryggðra lána að fjárhæð 47 milljarðar króna á seinni hluta þessa árs, alls 255 milljarða króna á næsta ári og síðan 279 milljarða á árinu 2025.

Peningaprentun gengur til baka
Lífeyrissjóðir eru í góðri stöðu til að sækja stóran hluta af þeim íbúðalánum sem verða endurfjármögnuð á næstu tveimur árum. Það myndi hafa töluverð áhrif á peningamagn í umferð.

Á kynningarfundi peningastefnunefndar í síðustu viku var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri spurður hvort bankinn hefði lagt mat á áhrifin af því að stór hluti af þessum óverðtryggðu lánum heimila færðist aftur til lífeyrissjóða.

„Það er búið að tala um í tvö eða þrjú ár að það séu allir að fara yfir í verðtryggð lán, en það hefur kannski ekki gerst í sérstökum mæli fyrr en núna,“ sagði Ásgeir.

„En það sem skiptir máli er að verðtryggða krafan hefur verið að hækka þannig að peningastefnan er líka að miðlast yfir í verðtryggða kerfið. Það verður ekki endilega framhjáleið að fara yfir í lága verðtryggða vexti.“

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa, sem ræður þróun verðtryggðra vaxta í hagkerfinu, hækkaði hröðum skrefum frá byrjun sumars og fram til loka september. Hún hefur þó heldur gefið eftir á síðustu vikum, meðal annars vegna væntinga um að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafi mildandi áhrif á vaxtaákvarðanir Seðlabankans.

Þá sýna tölur Seðlabankans að ný verðtryggð fyrirtækjalán voru jákvæð um 15 milljarða króna í október, sem er mesta aukningin frá því í júlí 2018, og markar áframhaldandi upptakt í veitingu slíkra lána.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði í samtali við Hluthafann fyrr í þessum mánuði að mikil sókn í verðtryggð lán myndi, eðli málsins samkvæmt, auka þörf bankanna fyrir verðtryggða fjármögnun. Hann benti á að bankarnir fjármögnuðu íbúðalán til einstaklinga með útgáfu sértryggðra skuldabréfa en öðru máli gegndi um annars konar útlán, t.d. verðtryggð fyrirtækjalán.

„Bankarnir gætu þurft að auka ásókn fólks og fyrirtækja í verðtryggð innlán, eða hefja útgáfu á almennum, verðtryggðum skuldabréfum ef mikill vöxtur verður í slíkum útlánum.“

Umfjallanir