Svissneska fjármálafyrirtækið UBS telur að möguleikarnir sem felast í markaðssókn Alvotech með hliðstæðulyfjunum Simlandi og Selarsdi komi ekki að fullu fram í hlutabréfagengi íslenska líftæknifyrirtækisins, sérstaklega í ljósi þeirra markaðshræringa sem væntanlegar eru á næstu misserum.
UBS hefur gefið út sitt fyrsta verðmat á Alvotech þar sem verðmatsgengið er 18 Bandaríkjadalir, ríflega 40 prósentum yfir genginu á markaði í dag. Samkvæmt líkani svissneska bankans verða tekjur Alvotech 1,6 milljarðar Bandaríkjadala árið 2028, jafnvirði 226 milljarða króna, en verðlagning fyrirtækisins á markaði gefur til kynna að fjárfestar sjái tekjurnar ekki fara upp í nema 1,2 milljarða dali yfir sama tímabil.