Beint í umfjöllun

„Þessir fundir eru allir eins“ – Ákall um betri aðalfundi, vökul Sjóvá og aðgerðapakki á Bakka

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu og Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis.

Birta og Stefnir vilja glæða umræður á aðalfundum

Það voru meiri líkur en minni á því að aðalfundur Kviku banka í síðustu viku myndi spilast út eins og flestir aðrir fundir hjá skráðum íslenskum félögum. Þrátt fyrir markverða atburði á síðasta ári – svo sem risasölu á tryggingafélaginu TM til Landsbankans og arðgreiðsluna sem af henni leiddi – var ekki viðbúið að neinn hluthafi tæki til máls. Á hinum hefðbundna fundi eru tillögur bornar undir hluthafa og afgreiddar með handauppréttingum á innan við klukkutíma.

En í þetta sinn kvaddi sér hljóðs Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs þar sem hann gerði hluthafamenningu að umtalsefni og hvatti til betri umræðuhefðar. Á fundinum var Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, sem tók hvatninguna til sín og daginn eftir ákvað hann að stíga upp í pontu á aðalfundi Nova af sömu ástæðu.

„Á þessum fundi náðist að brjóta upp hefðbundna mynstrið og úr varð meira samtal,“ segir Jón.

Lesa umfjöllun


Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Sjóvár

Sjóvá vökul fyrir „óeðlilegri“ samkeppni á breyttum markaði

Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Sjóvár, segir að tryggingafélagið muni fylgjast vel með því að keppinautarnir, sem nú eru ýmist á snærum banka eða í nánu samstarfi við þá, beiti sér ekki með óeðlilegum hætti í samkeppni.

„Það er búið að breyta leiknum á íslenska tryggingamarkaðinum og við þurfum að vera vakandi fyrir því hvernig bankarnir beita sér við sölu trygginga,“ segir Björgólfur í samtali við Hluthafann en hann talaði á sömu nótum á aðalfundi Sjóvár um miðjan mars.

Lesa frétt


„Yfirgripsmikill aðgerðapakki“ fyrir kísilverið á Bakka

Kísilstarfsemi á vegum þýska fyrirtækisins PCC, sem er að megninu til kísilverið á Bakka, var rekið með 45 milljóna evra halla á síðasta ári, eða sem nemur 6,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýútgefnum ársreikningi PCC.

Kísilstarfsemin var keyrð á fullum afköstum nánast allt árið 2024. Tekjurnar jukust um 18 prósent milli ára og EBT, rekstrarhagnaður fyrir skatta, batnaði um meira en 30 milljónir evra. En þrátt fyrir bata var niðurstaðan enn sem áður verulegur halli upp á 45 milljónir evra.

Þungur róður hjá kísilverinu á Bakka
Eftir að verð á kísilmálmi rauk upp í hæstu hæðir á seinni hluta árs 2021 var til skoðunar að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins á Bakka og taka yfir verksmiðjuna í Helguvík. Síðan þá hafa aðstæðurnar versnað til muna.

„Það er ljóst frá sjónarhóli PCC Group að fjárhagsleg frammistaða starfseminnar er ekki ásættanleg. Framleiðslukostnaður hélst hár og aðstæður á markaði voru áfram erfiðar,“ segir í uppgjörinu.

Sú snarpa hækkun sem varð á kísilverði á seinni helmingi árs 2021 og kom rekstrinum réttum megin við núllið um skamma hríð gekk fljótt til baka. Síðan þá hefur samkeppnisþrýstingur frá Kína haldið verðinu lágu og litað afkomu verksmiðjunnar.

Í ljósi þess var tekin ákvörðun í febrúar um „yfirgripsmikinn aðgerðapakka“ í samráði við utanaðkomandi ráðgjafa.

Verðþróun á tiltekinni gerð kísilmálms.

„Til viðbótar við útskiptingu á starfsfólki í lykilstöðum hefur þetta í för með sér endurskoðun á hlutverkum og ábyrgð þar markmiðið er að fækka tengipunktum innan fyrirtækisins og ná fram frekari skilvirkni í ferlum með tilliti til stöðugleika í framleiðslu. PCC gerir ráð fyrir að áhrifin byrji að koma í ljós á öðrum ársfjórðungi.“

Kísilverið vinnur nú að því að auka framleiðslugetu á hágæðakísil þannig að unnt sé að fá hærri verð á markaði. Til lengri tíma litið, segir í uppgjörinu, ætti markaðsetning á hágæðakísil að hafa fjárhagslega jákvæð áhrif á starfsemina. PCC á ríflega 65 prósenta hlut í kísilverinu á móti íslenskum lífeyrissjóðum.


Skotsilfur

Blackrock vildi losa hlutinn í IWH í fyrra og stofnandinn fékk stóra kröfu í fangið

Árið 2023 var „krefjandi“ fyrir Icelandic Water Holding, sem rekur vatnsverksmiðju í Ölfusi og selur vatnið undir vörumerkinu Icelandic Glacial. Þetta kemur fram í nýbirtu en síðbúnu uppgjöri, en reikningurinn fyrir árið 2024 liggur ekki enn fyrir.

Þessi umfjöllun er eingöngu ætluð áskrifendum

Áskrift

Ertu nú þegar með reikning? Innskráning

Umfjallanir