Innan hluthafahóps og stjórnar Sýnar hafði myndast samstaða um að hverfa frá því að skoða sölu á vefmiðlum og útvarpi. Kauphallartilkynningin sem var send út fyrir helgi var því ekki svo óvænt. En þó kveður við nýjan tón, þótt tilkynningin sjálf hafi verið nokkuð litlaus eins og gengur, frá því þegar stærsti hluthafinn keypti sig inn í félagið árið 2022.
Þegar InfoCapital, sem er að mestu leyti í eigu Reynis Grétarsson, kom inn í hluthafahópinn var hugmyndin sú, að undirliggjandi eignir Sýnar væru meira virði, jafnvel margfalt meira virði, en það sem hlutabréfamarkaðurinn endurspeglar. Ein leið til að draga dulin verðmætin fram í dagsljósið – og ástæðan fyrir því að eignarhald á miðlunum var tekið til skoðunar – væri sala á eignum. Það var það tekið formlega til skoðunar í desember.
Eitt af því sem setti strik í reikninginn var góður gangur í auglýsingasölu á meðan hörð samkeppni á fjarskiptamarkaði hefur haldið aftur af öðrum stórum tekjustoðum. Í fyrra jukust auglýsingatekjur á öllum miðlum um 13 prósent og félagið upplýsti að auglýsingatekjur sjónvarps hefðu aukist um 46 prósent á síðasta fjórðungi ársins. Um svipað leyti gekk stærsti keppinauturinn, Síminn, frá kaupum á Billboard, sem er stærst á markaðinum fyrir birtingar á auglýsingaskiltum.
„Þarna sjá fjarskiptafélög vaxtarmöguleika,“ segir sjóðstjóri í samtali við Hluthafann. „Eftir að fjárfestum var boðið í gagnaherbergið þá varð mikill vöxtur í auglýsingatekjum. Eins og ég skildi þetta voru kaupendur að meta félagið með tölurnar sem þeir höfðu í höndunum á meðan seljandinn vildi fá vaxtartækifæri inn í söluverðið.“
Ákvörðun stjórnar snerist þó ekki einvörðungu um það, að vaxtarmöguleikar í auglýsingum hefðu hækkað verðmiðann umfram það sem mögulegir kaupendur höfðu í huga. Hún helgast ekki síður af því – byggt á samtölum Hluthafans við þá sem þekkja vel til innan Sýnar – hvernig nýr forstjóri, Herdís Dröfn Fjeldsted, hefur haldið um stjórnartaumana frá því að hún tók við þeim í janúar.