
Landsbankinn hefur lokið við að þróa aðferðafræði til að meta sjálfbærniáhættu í stórum lánveitingum. Nýja aðferðafræðin felur í sér að fyrirtæki sem sinna sjálfbærnimálum njóta þess í sínum lánskjörum og að sama skapi munu fyrirtæki sem dragast aftur úr í sjálfbærnimálum sækja dýrari fjármögnun.
„Fyrirtækjalán eru metin hvert fyrir sig, við erum ekki með föst kjör líkt og t.d. í íbúðalánum til einstaklinga eða á sparireikningum. Með því að sinna sjálfbærnimálum vel hlýst minni áhætta, lánið verður álitlegra og það endurspeglast í lánakjörum,“ útskýrir Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá Landsbankanum.
„Það er ekki verið að veita afslátt af álagi venjulegra lánskjara heldur eru lánskjörin metin í samræmi við starfsemina og það eru einhverjar líkur á því að sjálfbær starfsemi sé áhættuminni og njóti þess í lánskjörum.“
Það er ekki hægt að setja tölu á mismun lánakjara milli græns verkefnis og grás verkefnis, segir Árni, enda er hvert verkefni einstakt og svo eru líka ólík verkefni innan atvinnugreina. Sumar greinar eru í eðli sínu grænni en aðrar, til dæmis verkefni sem snúast um hitaveitu og rafmagnsframleiðslu, á meðan aðrar eru grárri.
Íslandsbanki hefur þegar innleitt smávægilegan afslátt í takt við hagstæðari fjármögnunarkjör af fyrirtækjalánum sem falla undir sjálfbæra fjármögnunarrammann og í umfjöllun Hluthafans síðasta sumar kom fram að Arion banki væri einnig að vinna að því að bjóða betri kjör á grænum fyrirtækjalánum.

Áskorunin sem bankar standa frammi fyrir í tengslum við minnkun útblásturs er sú, að 99 prósent af losuninni kemur frá lánasafninu og er því að miklu leyti utan þeirra áhrifasviðs. Losun lánasafnsins endurspeglar fremur hvaða áherslur ríkja í atvinnulífinu og hvernig aðgerðir stjórnvalda – eða skortur á þeim – hafa áhrif á ákvarðanatöku fólks og fyrirtækja.
Niðurfelling á skattalegum hvötum vegna kaupa á nýjum rafbílum, svo eitt dæmi sé nefnt, hafði veruleg áhrif á rafbílasölu og takmarkað getu bankanna til að minnka mælda losun vegna bílalána.
Til áskrifenda: Eins og nefnt var í síðasta fréttabréfi þá er bréfið í þessari viku mun minna í sniðum en vanalega. Beðist er velvirðingar á því. Ástæðan er sérstök Íslandsferð ritstjóra til að kynna sér betur staðhætti í íslensku viðskiptalífi og hefur hún skilað hafsjó af umfjöllunarefni sem lítur dagsins ljós á komandi vikum.
Skotsilfur
Hræringar í færsluhirðingu
Móðurfélag Rapyd á Íslandi vinnur nú að því að sækja 300 milljónir Bandaríkjadala í fjármögnunarumferð sem metur fyrirtækið á 3,5 milljarða dala. Verðmatið hríðfellur frá síðustu fjármögnunarumferð árið 2021 en þá hljóðaði það upp á heila 9 milljarða dala. Þar með bætist færsluhirðirinn við sístækkandi hóp vaxtarfyrirtækja sem hafa þurft að bíta í það súra epli að lækka verðið milli umferða.
Á íslenska markaðinum hefur Rapyd verið á undanhaldi. Stuðningur forstjórans Arik Shtilman við árásir Ísrael á Gasa hratt af stað sniðgönguherferð þar sem fjöldi innlendra fyrirtækja var hvattur til þess að skipta um færsluhirði og það virðist sem svo að aðgerðasinnum hafi orðið margt ágengt.
Í síðasta uppgjöri Landsbankans, sem kom nýr inn á færsluhirðingarmarkaðinn árið 2023, kom fram að 757 ný fyrirtæki, þar á meðal smásölurisar eins og Krónan, N1 og Samkaup, hefðu komið í færsluhirðingu hjá bankanum í fyrra. Í þessu samhengi má einnig nefna að rammasamningur Rapyd við Ríkiskaup, sem nær yfir 160 ríkisstofnanir, rennur út í þessum mánuði.
Straumur greiðslumiðlun, dótturfélag Kviku, fór einnig af stað árið 2023 eftir að hafa keypt söluaðilasafn af Rapyd sem náði yfir 25 prósent af íslenska markaðinum. Kvika kynnti í gær ársuppgjör sem sýndi tæplega 19 prósenta arðsemi á árinu 2024 en þegar forstjórinn, Ármann Þorvaldsson, var spurður sérstaklega um færsluhirðinguna svaraði hann að samkeppnin væri ansi hörð um þessar mundir.
„Það er ansi hörð samkeppni þarna og frá því að við tókum ákvörðun um að kaupa starfsemina frá Rapyd, sem leggur grunninn að Straumi, þá hefur hún frekar aukist ef eitthvað er.“
„Landsbankinn hefur komið sterkur inn á þennan markað og þá hefur Teya náð vopnum sínum. Okkur gengur bara vel í þessari samkeppni en það er erfitt í þessu samkeppnisumhverfi að vera að auka mikið markaðshlutdeildina. Við viljum ekki vera að bjóða upp á þannig verð að við séum að tapa á þjónustunni.“
Myndritið

Myndritið er tekið úr uppgjörskynningu Elkem, norska fyrirtækisins sem rekur kísilmálmsverksmiðjuna á Grundartanga, frá því í vikunni og sýnir það hvernig dauf eftirspurn hélt verði kísilmálms niðri á árinu 2024. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir kísilver PCC á Bakka, sem hefur glímt við þrálátan taprekstur á meðan verðin hafa verið svona lág.
