Ríkisvíxlar hafa verið fyrirferðamiklir í fjármögnun ríkissjóðs að undanförnu. Þeir hafa farið úr því að vera að meðaltali 6,5 prósent af innlendum skuldum ríkisins árið 2022 upp í nærri 12 prósent á síðasta ári með tilheyrandi áhrifum á vaxtabyrði. Sú þróun hélt áfram með nýlegu útboði.
Andri Már Rúnarsson, sjóðstjóri hjá Kviku Eignastýringu, segir að væntanlega hafi frestun á sölu Íslandsbanka áhrif en hún átti að fara fram á síðasta ári.
„Mér finnst nokkuð líklegt að víxlaprógrammið verði eitthvað minnkað á árinu. Nú hefur komið fram að ríkisstjórnin ætli sér að selja Íslandsbanka á árinu en hlutur ríkisins telur um 100 milljarðar króna.“