Beint í umfjöllun

Reglurnar ofar vitsmunalegri getu og sektirnar vekja ugg

Lögmaður frá LOGOS sagði í pallborðsumræðum á Lagadeginum í gær að sektarfjárhæðir í fjármálageiranum væru orðnar „ógnvekjandi“. Hluthafar, þeir sem mögulega var brotið gegn, þyrftu á endanum að greiða sektirnar.

Löggjöfin um fjármálamarkaði er orðin of flókin og úttekt Englandsbanka bendir til þess að mannfólk búi ekki yfir vitsmunalegri getu til að skilja hana til hlítar. Þetta kom fram í máli Eyvinds G. Gunnarsson, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, á Lagadeginum, sem var haldinn í gær.

„Hún er orðin of flókin, það er staðreynd. Það er ekki bara mín tilfinning, það er tilfinning fjölmargra annarra.“ sagði Eyvindur í sérstökum pallborðsumræðum um löggjöfina.

Þegar flækjustigið er metið þarf að skoða þrjá þætti. Í fyrsta lagi þarf að skoða hreinan orðafjölda, í öðru lagi hvernig textinn er í samanburði við evrópskar reglugerðir og í þriðja lagi hversu oft er vísað til annarra reglugerða.

Eyvindur sagði að Englandsbanki hafi fengið lögfræðinga, verkfræðinga og sérfræðinga af fleiri gerðum til að gera úttekt á Basel-regluverki Evrópusambandsins, og niðurstöðurnar töluðu sínu máli. Orðafjöldi hafi tvöfaldast í 400.720, tilvísanir í annað regluverk hafði aukist um 4.000 prósent og setningarnar stækkað um 80 prósent.

Bankarnir ekki lengur „brennslustaður fyrir peninga“
Hluthafinn tók saman það helsta sem kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun.

„Þeirra niðurstaða er sú að kostnaðurinn af þessu sé gífurlegur og þeir í raun og veru fullyrða að Homo sapiens sapiens hafi ekki vitsmunalega getu til að skilja þetta,“ sagði Eyvindur. Hann bætti við að Englandsbanki hefði reynt að nýta gervigreind til að greina löggjöfina.

„Vandinn er að gervigreindin gat staðsett okkur hvar við værum í lögunum en hún gat hins vegar ekki tekið afstöðu til matskenndra hugtaka vegna þess að í Basel-lögggjöfinni eru tíu matskennd hugtök á móti hverju fastákveðnu viðmiði.“

Björk Sigurgísladóttir, nýskipaður varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, rifjaði upp ummæli, sem forstjóri danska fjármálaeftirlitsins lét falla fyrir ári síðan, um að fjármálaregluverkið í Evrópu teldi 15 þúsund blaðsíður.

„Ég held ég geti staðfest að þessi tala er enn hærri í dag. Þetta er áskorun fyrir lítið eftirlit og lítið land að taka þátt í innleiðingunni og koma þessum viðmiðunarreglum í framkvæmd. Hlutfallslega held ég að starfsmenn fjármálaeftirlitsins séu meira í þessum störfum heldur en hjá stærri eftirlitum sem njóta góðs af því hversu stór þau eru,“ sagði Björk.

Háar sektir koma niður á hluthöfum

Á fundinum var einnig komið inn á viðurlögin sem fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir ef þau gerast uppvís að því að hafa farið á svig við regluverkið. Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður hjá LOGOS lögmannsþjónustu, sagðist hafa tekið eftir breytingu á því hvernig eftirlitsyfirvöld nálgast þessi mál.

„Þegar ég var að byrja í þessu þá var meira um að þegar menn fundu að einhverju lá beinast við að veita áminningu og menn reyndu að læra af því sem hefði betur mátt fara. Svo voru kannski einhverjar sektir eða févíti, en það sem við erum að sjá núna er að [...] þetta eru orðnar alvöru fjárhæðir,“ sagði Ólafur.

Íslandsbanki gerði sátt við fjármálaeftirlitið fyrr á þessu ári og féllst á að greiða 1.160 milljónir króna í sekt vegna margvíslegra brota við umsjón á sölu ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í bankanum sjálfum. Þetta er langhæsta sektin sem lögð hefur verið á íslenskt fjármálafyrirtæki.

„Stundum spyr fólk sig í þessum geira hvers vegna það sé að vinna í þessu“

Ólafur, án þess að nefna mál Íslandsbanka sérstaklega, benti á að stjórnendur fjármálafyrirtækja stæðu frammi fyrir vali um að verja ákvörðun sína eða gangast við sáttarboði sem fæli í sér afslátt á sektarfjárhæð. Það væri meiriháttar ákvörðun að fara í dómsmál við eftirlitsstofnun, sem flest fyrirtæki vilja eiga í góðu samstarfi við.

„Þegar fjárhæðirnar eru orðnar svona háar veltir maður fyrir sér hver tilgangurinn er. [...] Ef sekt er lögð á útgefanda skráðra hlutabréfa, hver verður fyrir tjóninu? Það eru hluthafarnir – þeir sem var mögulega brotið gegn – sem þurfa á endanum að greiða sektina. Ég sakna þess anda, sem var hér í árdaga verðbréfamarkaðarins, þegar menn fundu að einhverju, áminntu og “move on”. Gerum þetta betur næst. En þetta eru orðnar alvöru fjárhæðir og aðeins ógnvekjandi,“ sagði Ólafur.

Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Arion banka, lýsti því hvernig óttinn við háar sektir og persónulega orðsporshnekki hefðu áhrif á starfslíðan stjórnenda innan bankakerfisins.

„Ég get alveg viðurkennt það að fólk sem starfar í þessum fyrirtækjum fær af og til illt í magann. Þetta er yfirgripsmikið og stundum líður manni eins maður hafi ekki yfirsýn og sé að missa af einhverju,“ sagði Birna.

„Óréttmætar“ kvaðir kostuðu Mílu hundruð milljóna króna
Kvaðirnar gera það að verkum að nánast allar viðskiptalegar ákvarðanir Mílu þurfa samþykki Fjarskiptastofu sem getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár.

Fimm stjórnendur Íslandsbanka, þar á meðal bankastjórinn, létu af störfum eftir að greint var frá sáttinni við fjármálaeftirlitið. Auk þess hafði regluvörður bankans hætt áður en en sáttin var gerð opinber.

„Það er óþægileg tilfinning að upplifa að það geti leitt til hárra sekta og persónulegra orðsporshnekkja eins og við erum nýbúin að sjá dæmi um. Stundum spyr fólk sig í þessum geira hvers vegna það sé að vinna í þessu. Það er svoleiðis þegar verst lætur.“

Með sáttinni féllst Íslandsbanki á mat fjármálaeftirlitsins um að viðeigandi lagakröfum og innri reglum bankans um veitingu fjárfestingarþjónustu hefði ekki verið fylgt í öllum tilvikum við undirbúning framkvæmd útboðsins. Átti það einkum við hvað varðar hljóðritanir símtala, upplýsingagjöf til viðskiptavina, flokkun fjárfesta og ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum.

Umfjallanir