Beint í umfjöllun

Qair hefur aldrei rekist á annað eins kraðak í stjórnsýslu

Alþjóðlega orkufyrirtækið Qair hefur til skoðunar að skila inn stjórnsýslukæru þar sem fyrirtækið telur að málsferðferð Náttúrufræðistofnunar vegna tveggja vindorkukosta sé á skjön við stjórnsýslulög. Þá segir Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair, að skýrsla verkefnisstjórnar rammaáætlunar sé uppfull af veigamiklum rangfærslum og dæmum þar sem vísindalegar aðferðir virðast með öllu hunsaðar.

„Það er ekki rammaáætlun í öðrum löndum þannig að samanburðurinn er ekki 100 prósent. En ég get þó sagt fullum fetum að móðurfélag Qair Ísland, sem hefur unnið í endurnýjanlegum orkugjöfum í meira en 30 ár, hefur aldrei séð önnur eins vinnubrögð og þau sem tíðkast hér á Íslandi. Fyrirtækið er með starfsemi í meira en 20 löndum og þeir hafa aldrei rekist á annað eins kraðak,“ segir Friðjón.

Einn vindmyllugarður, Vaðölduver, hefur fengið tilskilin leyfi en þar áformar Landsvirkjun að reisa 30 vindmyllur. Aðeins einn til viðbótar, Blöndulundur, sem er einnig á vegum ríkisfyrirtækisins, er í nýtingarflokki en þegar tíu aðrir vindorkukostir voru til umfjöllunar hjá verkefnastjórn rammaáætlunar í vetur var niðurstaðan, sem stjórnin birti rétt fyrir áramót, að engir fleiri yrðu settir í nýtingarflokk.

Qair hefur þróað tvo af vindorkukostunum sem komu til álita; annars vegar Sólheima í Dalabyggð og hins vegar Hnotastein í Núpasveit. Qair er með alls níu vindorkukosti í þróun en það sem fyrirtækið hefur rekið sig á er ráðaleysi innan íslenskrar stjórnsýslu, sem virðist lita vinnubrögð stofnana sem að málinu koma.

Athugasemdir Qair við flokkun vindorkukostanna snúast meðal annars um fuglarannsóknir, enda er áflugshætta fugla eitt af stóru álitamálunum hvað vindorku varðar. Í tengslum við Sólheima var Qair gert að framkvæma umfangsmiklar fuglarannsóknir. Fuglafræðingarnir voru að störfum í alls 743 klukkustundir á vegum Qair, en í Garpsdal, þar sem annað orkufyrirtæki vill byggja vindmyllugarð, vörðu þeir 390 klukkustundum yfir jafnlangt tímabil.

Faghópur rammaáætlunar horfði hins vegar aðeins á fjölda skráðra fugla án þess að taka tillit til tímalengdar mælinganna, ályktaði að færri fuglar væru í hættu í Garpsdal og gaf því verkefni hærri einkunn í þessum efnum.

„Það liggur í hlutarins eðli að fleiri fuglar sjást á tíu klukkustundum en á fimm klukkustundum,“ segir Friðjón.

Fuglarannsóknir Qair leiddu í ljós að 13-14 hafernir yrðu í hættu á því að fljúga á vindmyllurnar yfir 25 ára fyrirhugað rekstrartímabil vindorkuversins, eða sem nemur 0,53 erni á ári. Þá er ekki búið að taka með í reikninginn þær mótvægisaðgerðir sem Qair hefur lagt fram til að draga úr áflugshættu.

Ein þeirra er sérstakt áflugsforðunarkerfi, sem nemur flug fuglanna og forðar áflugi ef hætta steðjar að þeim. Önnur snýst um að mála einn spaðanna svartan, en í Noregi minnkaði sú aðgerð áflug um allt að 70 prósent samkvæmt rannsókn sem gerð var þar í landi.

„Við vissum alltaf að Sólheimaverkefnið myndi fá mikla athygli í tengslum við fuglalíf og létum gera ítarlegar og mjög vandaðar fuglarannsóknir auk þess sem umfangsmiklar mótvægisaðgerðir voru lagðar fram,“ segir Friðjón.

„Við bjuggumst hins vegar ekki við því að Náttúrufræðistofnun myndi fjalla um málið með þeim hætti sem stofnunin hefur gert. Hvað þá að verkefnisstjórn rammaáætlunar myndi fjalla um málið með jafn ófaglegum hætti og raun bar vitni. Það er lágmarkskrafa að opinberir aðilar kynni sér málið til hlítar í stað þess að rasa að óvísindalegum og órökstuddum fullyrðingum.“

Í þessu samhengi nefnir Friðjón að franska fyrirtækið hafi tekið þátt í verkefni Náttúrufræðistofnunar þar sem ungernir voru merktir með GPS-tækjum sérstaklega í nágrenni Sólheima.

„Við báðum um að fá að nota niðurstöður rannsóknarinnar í umhverfismatsskýrslunni til þess að geta stuðst við bestu mögulegu gögn. En við fengum ekki leyfi Náttúrufræðistofnunar til að nota gögnin fyrr en tveimur dögum áður en við skiluðum inn umhverfismatsskýrslunni, sem var því miður of seint,“ segir Friðjón.

Vindorka á hafi langt frá því að vera raunhæf
Raforkuverð á Íslandi er of lágt til að uppbygging á vindmyllum úti á hafi sé fjárhagslega raunhæf.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar við umhverfismatsskýrslu Sólheima sagði stofnunin að Qair hefði líklega vanmetið áhrifin á haförn og benti á að fyrirtækið hefði ekki nýtt öll gögn sem það hafði undir höndum. Stofnunin gaf sér að afföllin yrðu einn haförn á hverju ári og þessi niðurstaða varð kveikjan að umfjöllun hjá Heimildinni þar sem fyrirsögn var: „Einn haförn á ári yrði spöðunum að bráð”.

„Það sem þessi aukagögn sýna fram á er gagnstætt því sem Náttúrufræðistofnun heldur fram. Þegar þú ert með GPS-mælingar færðu miklu betri mynd af flughegðun arna og gögnin sýna að á bilinu 3-9 ernir væru í áflugshættu yfir 25 ára rekstrartíma vindmyllugarðsins en ekki 13-14 eins og niðurstöður umhverfismatsins gefa til kynna, hvað þá 25 líkt og Náttúrufræðistofnun heldur fram“ segir Friðjón.

„En hvort sem maður styðst við GPS-gögnin, sjónarhólsmælingarnar eða aðrar framkvæmdar fuglarannsóknir og að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, er það niðurstaða útreikninga fuglasérfræðinga, að vindmyllugarðurinn muni ekki valda afföllum eins einasta hafarnar yfir rekstrartíma vindorkugarðsins. Þessi gögn hefur Náttúrufræðistofnun undir höndum, enda þeirra rannsóknir, og ættu þar af leiðandi að vita að um minni áflugshættu er að ræða en þau halda fram.“

Sérfræðingar stofnana hafi fullmótaða afstöðu

Qair hefur nú til skoðunar að skila inn stjórnsýslukæru þar sem fyrirtækið telur að málsferðferð Náttúrufræðistofnunar stríði gegn grunnreglum stjórnsýslulaga og meginreglum um vandaða stjórnsýsluhætti. Kæran myndi snúast um að verulegur misbrestur hefði verið á því að „greina faglega og af hlutlægni fyrirliggjandi gögn“, eins og það er orðað í stjórnsýslulögum, og að ákvörðun stofnunarinnar að líta fram hjá áhrifum mótvægisaðgerða stangist á við grunnreglur laganna.

Er þetta yfirsjón af hálfu Náttúrufræðistofnunar eða eitthvað annað?

„Við erum að glíma við stofnanir þar sem sérfræðingarnir virðast vera búnir að fullmóta afstöðu sína til vindorku á Íslandi. Sérfræðingar þurfa að búa yfir þeim eiginleika að geta skilið milli persónulegra skoðana og faglegrar umfjöllunar.“

Mun fleiri athugasemdir koma fram í umsögn Qair um drög að flokkun vindorkukosta, sem telur alls 49 blaðsíður. Til að mynda hefur faghópur 4 – sá sem fjallar um efnahagslega ávinninginn – ofmetið kostnaðinn af tengingu við flutningskerfið svo um munar.

Tengikostnaður Sólheima er sagður vera tæpar 5.200 milljónir þegar hið rétta er, að sögn Qair, að kostnaðurinn verður að hámarki ríflega 900 milljónir. Álíka ofmat gildir um Hnotastein þar sem faghópurinn sagði kostnaðinn nema tæpum 11 milljörðum, þrefalt hærri en mat Qair sem byggir á samskiptum fyrirtækisins við Landsnet.

Einungis var brugðist við fjórum af þeim 53 atriðum sem Qair taldi til í umsögn sinni við drög að tillögum sínum. Þær tillögur sem verkefnisstjórn hefur nú lagt í samráð eru í meginatriðum þær sömu og þegar hafa verið lagðar fram í formi draga.

„Í stuttu máli er umfjöllun verkefnisstjórnar og faghópa enn þá meingölluð þrátt fyrir ítarlegar og umfangsmiklar ábendingar fjölda aðila þar um í fyrra umsagnarferli. Það að leggja fyrir almenning slíkt plagg í annað skipti lýsir nokkuð vel því vafasama vinnusiðferði og þeim óvönduðu vinnubrögðum sem því miður virðist tíðkast hjá stjórnvaldinu.”

Óskýr skilaboð að ofan

Eftir höfðinu dansi limirnir. Friðjón segir að æðstu ráðamenn hafi ekki gefið skýr skilaboð um að vindorkan eigi að spila stórt hlutverk í orkuöflun – hvað þá þegar erlend orkufyrirtæki eiga í hlut.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sérstaklega vikið að vindorku en ríkisstjórnin vill vinna að breiðri sátt um lagaumgjörðina og sjá til þess að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í samtali við Ríkisútvarpið eftir áramót að það kæmi ekki til greina að búa til flýtimeðferðir fyrir vindorku fyrr en slík sátt lægi fyrir.

„Skattlagning vindorku er nú þegar mikil og ef við setjum hana í hlutfall við tekjur er hún áþekk því sem þekkist í Noregi, sem skattleggur vindorkuna einna mest á heimsvísu,“ segir Friðjón. Hann vitnar í nýlega skýrslu Deloitte sem sýnir að vindmyllugarðar skili um einni milljón króna fyrir hvert uppsett megavatt í fasteignagjöld og að 100 megavatta garður skili því sveitarfélagi 100 milljónum króna á ári.

„Þetta eru hlutir sem við höfum þurft að reikna þar sem ríkisvaldið virtist ekki fullmeðvitað um þessi mál. Í stuttu máli má segja að orkumálin séu í algjörum ólestri í stjórnsýslunni. Skilaboðin að ofan eru mjög óskýr og framtíðarsýnin í besta falli móðukennd sem veldur því að stofnanirnar vita ekki í hvorn fótinn á að stíga. Ef við ætlum okkur að tryggja lífsgæði þessa lands, orkuöryggi og framtíðar atvinnuuppbyggingu, hvað þá ná loftslagsskuldbindingum, þá þarf að hefjast handa ekki seinna en í gær. Og það þurfa allir sem vettlingi geta valdið að taka þátt, opinberir sem aðrir.“

Friðjón skorar á verkefnisstjórn rammaáætlunar og faghópana að líta sér nær, og verja trúverðugleika umfjöllunar sinnar með því að bregðast við öllum þeim athugasemdum sem berast í þessu umsagnarferli.

„Annars er nærtækast að líta svo á að umfjöllunin sé óverjandi og með öllu ómarktæk.”

Umfjallanir