Sameiningin leit vel út á blaði – báðir miðlar voru í dreifðu eignarhaldi og gáfu sig út fyrir að vera óháðir hagsmunablokkum. Nokkur samlegð var í kortunum en fyrir Kjarnann, sem hafði baslað við að byggja reksturinn á valkvæðum styrkjum frá lesendum, var ekki síður eftirsóknarvert að innleiða áskriftarlíkan sem hafði þjónað Stundinni vel.
Um mitt ár 2022 var verðbréfafyrirtækið Arev var fengið til að gera verðmat vegna mögulegrar sameiningar og var niðurstaðan sú að Kjarninn væri 100 milljóna króna virði og Stundin metin á rúmar 200 milljónir. Sameinað félag, samkvæmt verðmatinu sem Hluthafinn hefur undir höndum, væri hins vegar metið á 334 milljónir og þegar sameiningin gekk í gegn í byrjun árs 2023 var skiptihlutfallið nokkurn veginn 38 prósent á móti 62 prósentum.
Sameinaður fjölmiðill, Heimildin, hefur verið farsæll þegar reksturinn er skoðaður í tómarúmi. Fall Fréttablaðsins, sem hafði selt auglýsingar fyrir meira en 2 milljarða árið áður, gaf Heimildinni töluverðan meðbyr vorið 2023 og gerði miðlinum kleift að fjölga útgáfudögum þannig að blaðið kæmi út vikulega.
Eftir myndarlegan vöxt á árinu 2023 námu tekjur Heimildarinnar meira en 500 milljónum og sá 11 milljóna króna hagnaður sem starfsemin skilaði sama ár þykir ágæt niðurstaða á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hið sama er ekki hægt að segja um samstarfið innan hluthafahópsins, sem er nú klofinn í tvennt í kringum fyrirhuguð kaup á Mannlífi.