Eign erlendra fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum stækkaði um tæplega nítján milljarða króna í febrúar samkvæmt nýjum tölum Lánamála ríkisins. Aukninguna má rekja til útboðs snemma í febrúar þar sem þátttaka erlendra fjárfesta knúði Seðlabanka Íslands til að kaupa gjaldeyri fyrir rúmlega 9 milljarða króna.
Aukningin var nær öll í bréfum til ársins 2035 og vísbendingar eru um að BlueBay Asset Management, stærsti erlendi fjárfestirinn í íslenskum ríkisskuldabréfum, sé á bak við skuldabréfakaupin. Skömmu eftir útboðið birti fjárfestingastjórinn umfjöllun þar sem íslenskum ríkisbréfum var lýst sem „hágæðaeignum með háa ávöxtun“.
„Við höfum nýlega orðið bjartsýnni (e. more constructive) hvað varðar íslenska skuldabréfamarkaðinn,“ skrifaði Mark Dowding, fjárfestingastjóri BlueBay.
Dowding nefndi að á síðustu árum hefði verðbólgan verið til vandræða og hann rakti það til „óhóflegra launakrafna“ verkalýðsfélaga.
„Nú er það hins vegar svo, að skynsemin ræður för í kjaraviðræðum þar sem stéttarfélögin krefjast þriggja prósenta hækkunar á árinu 2024. Í ljósi þess er líklegt að verðbólga og vextir fari lækkandi. Á sama tíma er íslenska hagkerfið áfram stöndugt og við höllumst að því að líta á íslensk ríkisbréf sem hágæðaeignir með háa ávöxtun.“