Beint í umfjöllun

Niðurgreidd samkeppni í skjóli eftirlitsins

Íslandspósti er leyft að fá ríkisframlög vegna reksturs á samkeppnismörkuðum og verðleggja þjónustu sína undir kostnaði. Lögin, sem áttu að opna fyrir samkeppni á póstmarkaði, eru því að engu höfð.

Íslandspóstur fær niðurgreiðslur upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári þrátt fyrir að ríkisfélaginu beri samkvæmt lögum að láta gjaldskrá sína fylgja kostnaði við þjónustuna. Það má að stórum hluta rekja til þess hvernig eftirlitsstofnanir – fyrst Póst- og fjarskiptastofa og síðan Byggðastofnun – vannýta lagaheimildir sem ætlað er að koma böndum á niðurgreiddan samkeppnisrekstur.

Lögum um póstþjónustu var breytt árið 2019 í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins í því skyni að opna markaðinn fyrir samkeppni. Einkaréttur Íslandspósts á bréfasendingum var afnuminn en þess í stað var ríkisfyrirtækið útnefnt sem alþjónustuveitandi.

Sem alþjónustuveitanda er Íslandspósti skylt að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um lágmarkspóstþjónustu. Hér á landi hefur lágmarkið verið skilgreint sem dreifing pakka og bréfa tvo daga vikunnar um land allt. Ef þeirri kvöð fylgir fjárhagsleg byrði er hægt að sækja um fjárframlög frá ríkinu á móti.

Við setningu laganna var gert ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs af póstþjónustu yrði á bilinu 200-250 milljónir króna á ári. Kostnaður hefur hins vegar farið langt fram úr áætlunum en ríkisframlagið til Íslandspósts nam 846 milljónum króna fyrir síðasta ár.

Samkvæmt leiðbeiningum laganna þarf að meta vandlega þá fjárhagslegu byrði sem lögð er á alþjónustuveitandann, Íslandspóst, og jafnframt eiga ríkisframlög að valda sem minnstri röskun á samkeppni. Aðferðin, sem Evrópuríki nota við að meta þessa fjárhagslegu byrði, snýst um að bera sviðsmyndir án kvaða frá hinu opinbera saman við raunveruleikann.

Með þessari framkvæmd eru fyrirmæli laga um póstþjónustu í reynd að engu höfð og alþjónustuveitanda gert kleift að verðleggja þjónustu undir kostnaði á kostnað ríkissjóðs“

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Copenhagen Economics, sem var unnin fyrir Íslandspóst árið 2018, var aðferðinni lýst þannig að ef Íslandspóstur eða keppinautar hans myndu líklega veita þjónustu umfram lágmarkskröfur án nokkurra kvaða ætti ekki að taka þjónustuna með í útreikningi á fjárhagslegri byrði. Þá væri ekki um eiginlega byrði að ræða, enda þjónustan veitt á markaðslegum forsendum

Þrátt fyrir að þessi aðferð hafi verið tilgreind sérstaklega í greinargerð með lagafrumvarpinu virðist sem svo, að þær eftirlitsstofnanir, sem taka ákvörðun um byrði alþjónustu og þar með fjárframlög ríkisins til Íslandspósts, hafi látið hjá líða að tileinka sér hana.

Frá gildistöku laganna og fram til 1. maí 2022 dreifði Íslandspóstur bréfum og pökkum 2,5 - 5 daga vikunnar um – vel umfram lágmarkið sem lögin kveða á um. Síðan þá hefur ríkisfyrirtækið dreift bréfum 2 daga vikunnar en eftir sem áður er pökkum dreift 5 daga vikunnar í flestum þéttbýlisstöðum. 

„Óréttmætar“ kvaðir kostuðu Mílu hundruð milljóna króna
Kvaðirnar gera það að verkum að nánast allar viðskiptalegar ákvarðanir Mílu þurfa samþykki Fjarskiptastofu sem getur tekið marga mánuði og jafnvel mörg ár.

Þá voru óvirk markaðssvæði, þ.e. svæði þar sem ólíklegt er að samkeppni þrífist, skilgreind þannig af eftirlitsstofnunum að þau næðu yfir 15 prósent afhendingarstaða á landinu. Í minnisblaði, sem Mörkin lögmannastofa útbjó fyrir keppinautinn Póstdreifingu og birt var á vef Alþingis, er bent að fjöldi keppinauta starfi á óvirku markaðssvæðunum og veiti þar þjónustu allt að 5 daga vikunnar.

„Það eitt og sér bendir til að samkeppni geti þrifist á umræddum markaðssvæðum og skilyrði til fjárframlaga til reksturs [Íslandspósts] séu ekki til staðar,“ segir í minnisblaðinu.

„Loks ber að benda á að ISP veiti þjónustu á umræddum markaðssvæðum allt að 5 daga í viku þrátt fyrir að einungis sé kvöð á fyrirtækinu um þjónustu tvisvar í viku. Fyrirtækið heldur því ekki uppi lágmarksþjónustu á umræddum markaðssvæðum heldur virðist þvert á móti veita aukna þjónustu til að mæta þeirri samkeppni sem er til staðar frá einkaaðilum.“

Nægt svigrúm til að hækka verð

Fleiri annmarkar eru á því hvernig eftirlitsstofnanir hafa meðhöndlað umsvif Íslandspósts. Í póstlögunum eru sett þau skilyrði að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði og að verðið þurfi að vera viðráðanlegt fyrir neytendur.

Það er ekki undir Íslandspósti komið að ákveða hvert viðráðanlegt verð sé, heldur ber honum að láta gjaldskrá fylgja raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði og eftirláta Byggðastofnun, sem hefur eftirlit með póstmarkaðinum, að skera úr um það hvort verðið sé viðráðanlegt. 

Þrátt fyrir ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði er verðlagning Íslandspósts vel undir kostnaði eins og gríðarlegt tap fyrirtækisins ber með sér. Og það virðist sem svo að Íslandspóstur geri ráð fyrir greiðslum úr ríkissjóði við setningu gjaldskrár. 

Í nýlegri ákvörðun Byggðastofnunar er vitnað í tilkynningu Íslandspósts um hækkun gjaldskrá í desember 2022. Þar er fjallað um þjónustu við sveitir landsins, svokallað svæði fjögur:

„Hér er um dýrasta hluta dreifikerfisins að ræða. Kostnaður ÍSP við að þjónusta þessa notendur sem hafa búsetu á svæði 4 er uppistaðan í þeim kostnaði sem félagið hefur af þeirri kvöð sem hvílir á félaginu að veita þjónustu um allt land, sbr. þau drög að umsókn um framlag vegna alþjónustu sem send var á Byggðastofnun [...] vegna alþjónustubyrði félagsins á árinu 2022.“

Samanburður á gjaldskrá Íslandspósts við Norðurlöndin og fleiri Evrópulönd sem lúta sömu lögum sýnir að ríkisfyrirtækið hefur töluvert svigrúm til að hækka gjaldskrá án þess að hún verði óviðráðanleg fyrir neytendur. Verð á bréfasendingum er um tvöfalt lægra hér á landi en á Ítalíu og í Frakklandi, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, og verðlagning pakkasendinga er með lægsta móti. 

Byggðastofnun hefur hins vegar ekki nýtt heimildir til að ákveða verðþak á gjaldskrá Póstsins, þ.e.a.s. að meta hvenær gjaldskráin verður óviðráðanleg fyrir neytendur. Að mati fyrrnefndrar lögmannastofu er vandséð hvernig Byggðastofnun geti mælt fyrir um greiðslur úr ríkissjóði án þess að hafa gengið úr skugga um að ekkert svigrúm hafi verið til hækkunar á gjaldskrá til að mæta umræddum kostnaði.

„Með þessari framkvæmd eru fyrirmæli [...] laga um póstþjónustu í reynd að engu höfð og alþjónustuveitanda gert kleift að verðleggja þjónustu undir kostnaði á kostnað ríkissjóðs,“ segir í minnisblaði Markarinnar. 

Umfjallanir