Beint í umfjöllun

Myndrit vikunnar: Lífeyrissjóðir hverfa af íbúðalánamarkaði

Markaðshlutdeild lífeyrissjóða og banka á íbúðalánamarkaði tekur hröðum breytingum um þessar mundir. Nýjustu tölur Seðlabankans sýna að ný sjóðfélagalán námu rétt rúmum milljarði króna í apríl en í sama mánuði lánuðu bankarnir heila 13 milljarða króna til íbúðarkaupa.

Þetta er skörp breyting frá því í nóvember þegar bankakerfið og lífeyrissjóðakerfið voru með jafna hlutdeild, um 10 milljarða hvort, og leita þarf aftur til júlí 2022 til að finna meiri mun en nú í apríl.

Skyndileg gagnsókn banka á lánamarkaði
Samleitni í vaxtakjörum, áföllin í Grindavík og loks hlutdeildarlán kunna að skýra skyndilega markaðssókn bankanna á lánamarkaði.

Í fyrri umfjöllun Hluthafans um markaðssókn bankanna kom fram að vaxtamunurinn milli sjóðfélagalána og íbúðalána bankanna hefði horfið snögglega á síðasta ári þegar vextir á sjóðfélagalánum hækkuðu hröðum skrefum og nú eru kjörin orðin sambærileg.

Seðlabankastjóri hefur leitt líkur að því að hin mikla tilfærsla íbúðalána til bankanna á árunum 2020 og 2021 hafi skilað sér í verulegu kostnaðarhagræði í bankakerfinu og þar með minnkandi vaxtaálagi á íbúðalánum. 

Minnkandi umsvif lífeyrissjóða á lánamarkaði getur haft töluverða þýðingu fyrir eignamarkaði, ekki síst verðbréfamarkaðinn, þar sem veiting sjóðfélagalána hefur tekið til sín fjármagn sem annars hefði leitað í aðra eignaflokka. Talsvert útflæði var úr öllum verðbréfasjóðum árið 2023 eða um 123 milljarðar króna.

Umfjallanir