Seðlabanki Íslands hækkaði bindiskyldu bankanna í apríl til að bregðast við miklum vaxtakostnaði. Vextirnir sem Seðlabankinn fær fyrir erlendar eignir, sem eru að mestu í erlendum bönkum og ríkisskuldabréfum, eru töluvert lægri en þeir vextir sem greiddir eru til bankanna fyrir innlán í krónum.
Gögn Seðlabankans fyrir maí sýna að afkomuspá bankans versnaði umtalsvert en nú ert gert ráð fyrir 13 milljarða króna tapi á þessu ári. Bankinn þarf ekki endilega að bregðast við þessari stöðu heldur getur hann bundið vonir við hagnað í framtíðinni.
Hinn möguleikinn væri að grípa til frekari aðgerða en hækkun bindiskyldunnar var sögð vera „hluti af heildarendurskoðun á vaxtakjörum sem helstu mótaðilar njóta í bankanum.“ Stjórnendur Seðlabankans hafa lagt áherslu á að draga þurfi úr taprekstri bankans til að viðhalda trúverðugleika peningastefnunnar. Þó ber að nefna að afkomuspáin flöktir töluvert og kann að breytast til betri vegar.