Beint í umfjöllun

Með öryggið að yfirvarpi

Skilvirkni víkur fyrir sjónarmiðum um öryggi á mörgum sviðum. En það er ástæða til að staldra við hvert og eitt mál, og spyrja hvort öryggið sé einfaldlega yfirvarp.

Eitt af því sem einkennir efnahagsstefnu Vesturlanda í dag er fráhvarf frá þeirri hugmyndafræði, sem áður var ríkjandi og snerist um að fela markaðslögmálum að ákvarða hvar vörur voru framleiddar, óháð því hvaða hlutverki þær gegna í hagkerfinu. Nú keppast Bandaríkin og Evrópusambandið um að niðurgreiða framleiðslu á hálfleiðurum, sem eru notaðir við smíði á mikilvægum tæknibúnaði, í stað þess að leyfa markaðinum að ráða för. Meginstefið er að fórna hluta af þeirri skilvirkni, sem alþjóðavæðingin hefur leitt af sér á síðustu áratugum, í því skyni að efla þjóðaröryggi.

Íslendingar ættu nú þegar að vera kunnugir fórnarskiptum af þessu tagi en eftir fjármálahrunið 2008 hafa íslenskir viðskiptabankar sætt umtalsvert hærri eiginfjárkröfum en almennt tíðkast á Vesturlöndum. Óneitanlega fylgir því öryggiskennd – hvort sem hún er fölsk eða sönn – að skikka bankana til þess að birgja sig upp af fjármagni og þegar fjármálamarkaðir titruðu í vor eftir fall nokkurra banka í Bandaríkjunum var lítil ástæða til að hafa áhyggjur af íslenska bankakerfinu.

Kostnaðurinn sem fylgir þessum kröfum er þó umtalsverður enda þurfa íslensku bankarnir að skila meiri hagnaði til að ná sömu arðsemi og aðrir bankar í Evrópu. Þannig var vaxtamunur íslensku bankanna, sem hlutfall af heildareignum, á bilinu 2,6 til 2,9 prósent á árinu 2022 en hjá öðrum stórum norrænum bönkum lá vaxtamunurinn á bilinu 1 til 1,6 prósent. Aðrir þættir en eiginfjárkröfur hafa áhrif á vaxtakjör en misræmið gefur þó ákveðna vísbendingu um hvað öryggiskenndin kostar.

Skilvirkni víkur nú fyrir varúðarsjónarmiðum á fleiri sviðum. Þannig hefur Alþingi til meðferðar frumvarp, sem skyldar fyrirtæki til að veita Lyfjastofnun upplýsingar um birgðastöðu allra lyfja í rauntíma og gengur þannig mun lengra en evrópska fyrirmynd laganna. Einnig er gert ráð fyrir að ríkið verji 500 milljónum króna á næstu fimm árum í þróun og rekstur á nýjum gagnagrunni til að fylgjast með birgðastöðunni.

Lyfjaheildsalar, sem hafa viðskiptalega hagsmuni af því að bregðast við birgðaskorti, búa nú þegar yfir gagnagrunni um lyf og er skylt samkvæmt lögum að tilkynna yfirvofandi skort. Eftir sem áður verður Lyfjastofnun úrræðalaus gagnvart alvarlegum lyfjaskorti og er því vandséð hvernig rausnarlegum fjárútlátum upp á hálfan milljarð króna er ætlað að efla lyfjaöryggi.

Þetta bliknar þó í samanburði við stórfelld áform Seðlabanka Íslands og forsætisráðuneytisins, sem miða að því að smíða innlenda smágreiðslulausn frá grunni. Seðlabankinn hefur margsinnis lýst áhyggjum sínum af því hversu háð íslensk greiðslumiðlun er erlendum fyrirtækjum – einkum með vísan til pólitískrar áhættu og milliríkjasamskipta – og afleiðingunum af sambandsrofi við útlönd.

Hvað þjóðaröryggi varðar er greiðslumiðlun mikilvægt viðfangsefni og verður Seðlabankanum því ekki lastað fyrir viðleitnina. Aftur á móti hafa fjármálafyrirtæki, bæði á sviði greiðslumiðlunar og bankaþjónustu, fært margvísleg og sannfærandi rök fyrir því að Seðlabankinn sé á rangri braut.

Fyrirtækin benda meðal annars á að innviðir, sem hægt er að nýta til að tryggja greiðsluflæði ef sambandið við útlönd rofnar, séu nú þegar til staðar og því óljóst hver ávinningurinn verði af því að byggja nýja innviði upp frá grunni. Greiðslumiðlunin Rapyd telur að yfirlýst markmið um þjóðaröryggi sé í raun lítið annað en „afsökunarástæða fyrir stórfelldum inngripum á markað sem ráðuneytið telur einfaldlega of dýran.“

Ýmislegt fleira má tína til, svo sem áform stjórnvalda um að krefja olíufélög um aukið birgðahald og áform um fjárfestingarýni, sem er til þess fallin að leggja hindranir í götu erlendrar fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum.

Líklega var síðasta breytingin sem verkaði í hina áttina, þ.e.a.s. frá varkárni í átt að skilvirkni, sú ákvörðun Seðlabankans að afnema sérstaka bindiskyldu á innflæði fjármagns á skuldabréfamarkaðinn árið 2019. Og til að undirstrika það hversu skjótt tíðarandinn breytist má rifja upp að fyrir rúmu ári síðan viðraði nefndarmaður peningastefnunefndar þá hugmynd að endurvekja bindiskylduna.

Alþjóðavæðingin er ekki hafin yfir gagnrýni. Það kunna að vera ríkar ástæður fyrir því að rýna í aðfangakeðjur, marka stefnu um innlenda framleiðslu á afmörkuðu sviði eða gera auknar kröfur um birgðahald á þjóðhagslega mikilvægum vörum. Að því sögðu verður að vera skýrt hver markmiðin eru og hversu mikið kostar að ná þeim.

Í ljósi reynslu atvinnulífsins af því hvernig staðið hefur verið að innleiðingu Evrópureglugerða, þar sem tilhneigingin hefur verið sú að ganga mun lengra en þörf krefur, er ástæða til að staldra við hvert og eitt mál, og spyrja hvort öryggið sé einfaldlega yfirvarp. Hættan er sú að lítið fáist í skiptum fyrir skilvirkni.

Höfundur er ritstjóri Hluthafans

Umfjallanir