Minnkandi leitaráhugi ferðamanna hvað Ísland varðar er „grafalvarleg“ þróun og fyrirboði um það sem koma skal ef ekkert verður aðhafst. Þetta segir Hjalti Már Einarsson, framkvæmdastjóri Datera, sem sérhæfir sig í gagnadrifnum og sjálfvirkum auglýsingaherferðum.
Hjalti hélt erindi á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar sem KPMG stóð fyrir í vikunni. Þar sagði hann ferðaþjónustuna hafa tilhneigingu til að horfa í baksýnispegilinn, til dæmis með því að skoða gögn eins og fjölda ferðamanna í síðasta mánuði, gistinætur og kortaveltu, til að meta á horfur í atvinnugreininni.
„Þessi gögn eru mikilvæg og geta sýnt breytingar á hegðun en þau segja okkur takmarkað hvað gerist næstu mánuði eða næstu ár.“