„Mig hafði alltaf langað til að stofna eigið fyrirtæki en á þessum tímapunkti var ég ekki með neina fastmótaða hugmynd. En ég fann að ég varð að láta reyna á þetta því þá gæti ég að minnsta kosti sagt: Ég reyndi,“ segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stofnandi Ankra, sem hefur undanfarin ár útvegað kollagen fyrir Ölgerðina og var nýlega keypt af íslenska drykkjaframleiðandanum fyrir 600 milljónir króna.
Hrönn, sem vann áður sem alþjóðlegur vörustjóri hjá Össuri, sá alltaf fyrir sér að stofna fyrirtæki tengt sjávarútvegi eftir að hafa fengið innsýn í atvinnugreinina frá tengdarföður sínum, sem starfaði sem skipstjóri. Það voru tækifæri fólgin í því að nýta betur hráefnin og byggja upp sterkari vörumerki í kringum fiskinn.