Beint í umfjöllun

Landsbréf hafa breytt reglum hlutabréfasjóða á þann veg að skýrar heimildir séu fyrir veitingu verðbréfalána. Önnur sjóðastýringarfyrirtæki hafa ekki stigið sama skref og það er ekki á dagskrá enn sem komið er.

„Almennt séð held ég að þetta geti leitt til meiri skilvirkni á markaði, sem er jákvætt í sjálfu sér þó að það hafi ekki verið markmiðið með þessu,“ segir Helgi Þ. Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, í samtali við Hluthafann.

Helgi segir að hingað til hafi heimild sjóðanna til verðbréfalána ekki verið mikið nýtt og það verði að koma í ljós hvort þetta muni aukast eitthvað næstu misserin.

Lesa umfjöllun


Photo by James Padolsey / Unsplash

Seldu „dýrasta skip Íslandssögunnar“

Havila Holding, fjárfestingafélag sem er í eigu norsku Sævik-fjölskyldunnar, hefur fest kaup á skipinu Polarsyssel, sem var í eigu Fáfnis Offshore og sagt „dýrasta skip Íslandssögunnar“ þegar það var sjósett árið 2014.

Polarsyssel kostaði meira en fimm milljarða króna og var smíðað til þess að þjónusta olíu- og gasborpalla á norðurslóðum. Fáfnir Offshore var á þessum tíma með annað stærra skip í smíðum, Fáfni Viking, og batt vonir við að gera út 3 eða 4 skip.

Verkefnum fyrir olíuvinnsluskip fækkaði hins vegar verulega eftir að olíuverð féll snarpt sumarið 2014. Stærra skipið fékkst aldrei afhent eftir að norska skipasmíðastöðin Hav­yard rifti samningnum við Fáfni Offshore og til að tryggja tekjur af Polarsyssel var gerður samningum við sýslumannsembættið á Svalbarða.

Polarsyssel hefur í meira en tíu ár gegnt margvíslegu hlutverki fyrir sýslumannsembættið, svo sem landhelgisgæslu og birgðaflutningi, og mun halda því áfram til ársins 2031 samkvæmt þjónustusamningi.

Á tímabilinu hefur Fáfni Offshore haft stöðugar tekjur, skilað nokkuð stöðugum hagnaði og náð að minnka skuldir. Reksturinn hefur verið í höndum Havila, sem nú hefur gengið frá kaupum á skipinu.

Tveir hluthafar; Sjávarsýn, sem er fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, og Akur fjárfestingar, sem er framtakssjóður í stýringu Íslandssjóða, fara hvor með ríflega 37 prósenta hlut í Fáfni Offshore. Þriðji hluthafinn er Hlér, fjárfestingafélag á vegum Guðmundar Ásgeirssonar, sem er yfirleitt kenndur við Nesskip.


Grynnkun skulda megi ekki bitna á fjárfestingu

Hvert á fætur öðru hafa sveitarfélög birt uppgjör fyrir síðasta ár þar sem afkoman sést batna verulega milli ára og fara langt fram úr áætlunum í sumum tilfellum. Aðalhagfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga rekur helstu ástæðurnar þar að baki en varar jafnframt við því að aukið svigrúm verði nýtt til að draga úr skuldsetningu ef það bitnar á fjárfestingum.

„Það er gleðilegt en einnig tímabært að afkoma sveitarfélaga batni því þá myndast svigrúm til að draga úr skuldsetningu og byggja upp viðnámsþrótt. Slíkt má hins vegar ekki koma niður á fjárfestingum.“

Lesa frétt


Mynd/Fjármálaráðuneytið

Heinemann í fullum rétti að mati ráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið telur að þýska fyrirtækið Heinemann, sem brátt tekur við rekstri Fríhafnarinnar, sé ekki bundið af sömu kvöðum um jafnræði við innkaup á áfengi og Fríhöfnin hefur verið. Samkvæmt því getur fyrirtækið farið sínu fram í samningaviðræðum við birgja.

„Það er [...] að koma í ljós, í samskiptum birgja við Heinemann, að einkavædd einokunarbúð er hálfu verri en ríkiseinokunarbúð og stundar bara þá viðskiptahætti sem henni sýnist, án nokkurs aðhalds frá Isavia eða fjármálaráðuneytinu, sem skipar stjórn Isavia,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Lesa frétt


Molar

  • Fjármálaráð telur að fjárhæðirnar sem sparast við hagræðingu nýrrar ríkisstjórnar, og tekjurnar sem hljótast af aukinni skattlagningu, muni fyrst og fremst fara til „annarra og nýrra verkefna“ en ekki í að bæta afkomuna og greiða niður skuldir. Þetta kemur fram í álitsgerð um fjármálaáætlun 2026-2030 sem var birt í gær en þar er bent á að uppsafnaður afgangur af ríkisrekstri verði ekki nema 30 milljarðar króna á umræddu tímabili.

  • Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra verður „sífellt sannfærðari um að grípa þurfi til róttækra aðgerða“ til að liðka fyrir framkvæmdum á íbúðahúsnæði. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands í síðustu viku og að sögn ráðherra verður horft til þess að gera róttæka endurskoðun á regluverki til einföldunar. Orðræðan rímar við áherslur Verkamannaflokksins í Bretlandi sem hefur heitið því að 1,5 milljónir íbúða verði byggðar á næstu fimm árum.


  • Neikvæður vaxtajöfnuður hefur sett sitt mark á eigið fé Seðlabanka Íslands, sem nam 115 milljörðum í lok árs 2022 en var komið niður í 90 milljarða um áramótin. Niðurstöður sviðsmyndagreiningar á þróun afkomu og eigin fjár bankans til næstu þriggja ára sýna þó að horfur eru „almennt nokkuð hagstæðari fyrir bankann en þær hafa verið undanfarin ár“. Eiginfjárstaðan gefur ekki tilefni til að innkalla fjármagn frá ríkinu en jafnframt er bankinn þó nokkuð frá 150 eiginfjármarkmiði, sem þarf að nást áður en hægt er að greiða arð til ríkissjóðs.

  • Eftirspurn í hagkerfinu var mjög veik á fyrsta fjórðungi ársins miðað við það sem Ölgerðin sér í sínum tölum. Þetta kom fram í máli Andra Þórs Guðmundssonar forstjóra á uppgjörskynningu en hann var spurður um helstu ástæðurnar fyrir varfærinni afkomuspá. Andri nefndi að sölutölur úr verslunum sýndu að eftirspurn væri mjög veik á helstu mörkuðum fyrirtækisins. Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur gosmarkaðurinn minnkað um 2,4 prósent. „Heilt yfir er ekkert sem bendir til þess að eftirspurn sé að styrkjast og svo eru blikur á lofti varðandi þróun ferðamanna.“

  • Í síðustu viku var fjallað um það að Eaton Vance hefði tvöfaldað vægi íslenskra hlutabréfa í þeim sjóðum sem eiga mest undir markaðinum. Það tók mið af stöðunni 31. janúar og áttu sjóðirnir þá 6,7 milljónir hluta í Arion banka. Skömmu eftir birtingu fréttarinnar dúkkaði bandaríska eignastýringarfélagið upp á listanum yfir stærstu hluthafa Arion banka og var þá komið með meira en 16 milljónir hluta.

Myndritið

Framleiðni vinnuafls hjá hinu opinbera haggast lítið

Myndritið er tekið úr álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 sem var birt í gær. Það sýnir þróun vísitalna um framleiðni vinnuafls í nokkrum atvinnugreinum frá árinu 2008 til 2024.

Í nánast öllum greinum hefur framleiðni vinnuafls, þ.e. sú verðmætasköpun sem verður til við framleiðslu á hverja unna vinnustund, farið vaxandi á síðustu 17 árum.

Það vakti hins vegar athygli fjármálaráðs að framleiðnivöxturinn er merkjanlega minnstur í þeim starfsgreinum sem teljast til opinberrar stjórnsýslu, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Telur ráðið ástæðu til að skoða þennan mikla mun nánar. Huga mætti að því hvort ekki megi nýta ýmsar tæknilausnir, t.d. gervigreind, til að auka framleiðni hjá hinu opinbera líkt og annars staðar á vinnumarkaði.


Umfjallanir