Uppgjör verðbréfaviðskipta snýst um að para saman kaupendur og seljendur, og tryggja að bréfin skipti um hendur fyrir umsamið verð. Á síðustu árum hefur það verið svo, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, að uppgjör vegna hlutabréfa hefur tekið tvo daga, þ.e.a.s. viðskipti á mánudegi eru gerð upp á miðvikudegi. Þetta kallast T+2 en síðasta vor var fyrirkomulaginu í Bandaríkjunum breytt í T+1, sem þýðir að viðskiptin eru gerð upp daginn eftir.
Ein ástæða fyrir þeirri ákvörðun bandaríska fjármálaeftirlitsins (SEC) að stytta uppgjörstímann var fárið í kringum tiltekin ódýr félög á borð við Gamestop árið 2021. Samspil lágra vaxta og tískustrauma á samfélagsmiðlum beindi gífurlegu fjármagni í fyrirtækin og varð til þess að verðið rauk upp úr öllu valdi.