Afkoma kísilversins á Bakka var neikvæð um meira en 80 milljónir evra, jafnvirði 12 milljarða króna, á síðasta ári, sem litaðist af lágum markaðsverðum. Framkvæmdastjóri Summu rekstrarfélags, sem hefur umsjón með eignarhaldi íslensku lífeyrissjóðanna, segir ekki á dagskrá eins og staðan er í dag að sjóðirnir leggi kísilverinu til meira fjármagn.
Kísilverð rauk upp í hæstu hæðir – í kringum 8 þúsund dali hvert tonn – á seinni hluta ársins 2021. Þessi hagstæða þróun gerði það að verkum að kísilverið á Bakka, sem hafði glímt við framleiðslutafir og erfiðar markaðaðstæður eftir gangsetningu þess þremur árum fyrr, skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn á lokafjórðungi ársins.