Þegar Íslandsbanki var skráður á markað um mitt ár 2021 bundu fjárfestar vonir við það, að stór hluti af umfram eigin fé, sem hleypur á tugum milljarða króna og situr á efnahagsreikningi bankans, yrði greiddur út. Ólga á fjármagnsmörkuðum setti strik í reikninginn en nú þegar aðstæður hafa batnað sjá stjórnendur bankans færi á því að ljúka ætlunarverkinu.
„Nú erum við að halda áfram með það sem við höfum sagst ætla að gera og straumlínulaga efnahagsreikning bankans, meðal annars með útgreiðslum til hluthafa,“ segir Ellert Hlöðversson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka.
Við lok fyrsta ársfjórðungs var CET1 eiginfjárhlutfall Íslandsbanka 19,9 prósent. Það er 420 punktum, eða 4,2 prósentustigum, yfir lágmarkskröfum eftirlitsyfirvalda, sem hljóða upp á 15,7 prósent. Markmið bankans er að vera 100 til 300 punktum yfir lágmarkskröfum og það þýðir að bankinn vill lækka umframeigið fé sitt um 120 til 320 punkta með útgreiðslu til hluthafa.
Áhættugrunnur bankans – reiknuð stærð sem eiginfjárhlutfallið miðast við – er í kringum 1.000 milljarðar króna. Það þýðir að 320 punkta lækkun á eiginfjárhlutfalli nemur um 32 milljörðum króna en varfærnislegri spá um 220 punkta lækkun myndi leiða til útgreiðslu upp á 22 milljarða króna til hluthafa. Ofan á það bætast 10 milljarðar króna sem bankinn er nú þegar búinn að setja til hliðar fyrir endurkaup á þessu ári.