Samkeppnisyfirvöldum, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu, ber að líta til margra þátta þegar þau meta hvort fyrirhugaður samruni raski samkeppni svo um muni. Samrunaeftirlit snýst í grunninn um mat á markaðsstyrk, þ.e.a.s. að horfa til markaðshlutdeildar sameinaðs fyrirtækis á viðkomandi markaði. Fyrirtæki býr við markaðsstyrki í þessum skilningi ef það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda.
En hvað með áhrif samruna á sjálfbærni, sem er ofarlega á baugi í bæði atvinnulífinu og stjórnsýslunni? Stór og öflug fyrirtæki, sem oft eru markaðsráðandi í skilningi samrunareglnanna, hafa meira bolmagn til að leggja fjármuni í rannsóknir og þróun, og til að koma á fót umhverfisvænum nýsköpunarfyrirtækjum. Gætu samrunareglur verið sjálfbærni Þrándur í götu?
Eggert B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, segir að viðfangsefni samrunareglna sé að koma í veg fyrir að sameinað fyrirtæki geti selt þjónustu sína og vörur yfir samkeppnisverði, þ.e.a.s. á hærra verði en vera myndi við meira samkeppnislegt aðhald. Það snýst fyrst og fremst um hag neytenda eins og hann birtist í buddu þeirra.