„Það voru engir happdrættisvinningar í boði – þessi viðsnúningur byggir að langmestu leyti á því að hafa fókus á því sem skiptir máli og reyna að halda dampi. Svo skiptir miklu máli að það sé gaman að því að mæta í vinnu á morgnana,“ segir Björgvin Jón Bjarnason, forstjóri Hreinsitækni, sem sérhæfir sig í að þjónusta samgöngukerfi, skólpkerfi og stóriðju.
Hreinsitækni er eitt af þeim þremur fyrirtækjum sem saman mynda eignasafnið hjá framtakssjóðinum TF II. Sjóðurinn var kominn á fullt skrið í fjárfestingum árið 2019 en ekki leið á löngu þar til hann lenti í verulegum vandræðum með eignasafnið, sem var fært niður um meira en helming yfir tveggja ára tímabil, alls 2,4 milljarða króna.
Þetta varð til þess að eigendurnir slitu samstarfi við sjóðastýringarfyrirtækið sem hafði komið sjóðnum á fót og gerðu samkomulag við Landsbréf um að taka við stýringunni um mitt ár 2023.
Staða framtakssjóðsins gjörbreyttist í fyrra þegar bókfært virði eignasafnsins var fært upp um 2 milljarða króna. Öll þrjú félögin áttu þátt í þeirri þróun. Líftæknifyrirtækið Genís gekk frá hlutafjáraukningu um mitt ár 2024 þar sem verðmiðinn hafði hækkað frá fyrri fjármögnunarumferð.
Undir lok árs var síðan greint frá því að Styrkás, sem er í meirihlutaeigu fjárfestingafélagsins Skeljar, hefði gert samkomulag um kaup á endurvinnslufélaginu Hringrás. Heildarvirði viðskiptanna, sem höfðu þó ekki gengið í gegn um áramótin, getur numið 6,5 milljörðum króna en til að setja það í eitthvað samhengi var Hringrás verðmetin á rétt tæplega milljarð í bókum TF II árið 2022 eftir miklar niðurfærslur.