Beint í umfjöllun

ESG, bankar og ríkisbréf

Eftir því sem keppnin um grænasta lánasafnið harðnar kunna bankar að líta til annarra kosta en ríkisbréfa við lausafjárstýringu.

Sjálfbærnireglur ESB og áhrif þeirra á íslenskt fjármálakerfi voru til umfjöllunar í síðustu viku. Athygli vekur að íslenskir bankar finna ekki græn verkefni til að fjármagna í þeim mæli sem vænst var, en þar kemur m.a. til sú staðreynd að Evrópski fjárfestingabankinn (EIB) og Norræni fjárfestingabankinn (NIB) hafa nú þegar skreytt sig með grænum skuldabréfum frá íslenskum orkuframleiðendum.

Samkeppni um fjármögnun á sviði endurnýjanlegrar orku er mikil. Vindmyllur eru settar upp í Evrópu þar enginn vindur blæs svo dögum og vikum skiptir. Í hverja vindmyllu eru notuð nokkur hundruð kílógramma af kopar en öflun hans krefst mikillar orku og raskar umhverfinu. Grænt fjármagn eitt og sér tryggir ekki sjálfbærni.

Bankar og sjóðir finna fyrir skorti á grænum verkefnum
Lífeyrissjóðir munu ekki eiga í vandræðum með að standa við loforð um grænar fjárfestingar enda er nægt framboð erlendis. Framboðið hér heima er þó minna en sumir höfðu vonast eftir.

Hvar geta íslenskir bankamenn stuðlað að sjálfbærni? Heilbrigður jarðvegur sem bindur kolefni er stærsta tækifæri Íslands til að stuðla að sjálfbærni og sporna við áhrifum loftslagsbreytinga. Jarðvegsrof á Íslandi hefur neikvæð áhrif á loftslag, en gróðurþekja og örverur í jarðvegi binda kolefni úr andrúmsloftinu betur en flest annað.

Íslenskir bændur rækta landið og beita það – stýra þannig kolefnisbindingarvél – en nú er svo komið að bændur eru fjármagnaðir af bönkunum á kjörum sem þeir ráða ekki við. Í þrengingum myndast oft bestu tækifærin.

Einnig var fjallað um það að innleiðing sjálfbærnireglugerða hefði í för með sér að bankarnir myndu í auknum mæli þrýsta á fyrirtæki að taka sér tak í umhverfismálum. Í ljósi þess að íslenskir bankar hafa sett markmið um að draga verulega úr kolefnisspori lánasafnsins munu fyrirtæki, sem láta sitt eftir liggja, eiga erfiðara með að fjármagna sig.

Þá vakna spurningar um áhrifin á fjármögnunarkjör ríkissjóðs. Þegar Seðlabanki Íslands hætti að bjóða viðskiptabönkum upp á mánaðarbundin innlán vorið 2020 streymdu meira en 100 milljarðar af lausafé bankanna inn á skuldabréfamarkaðinn. Þeir keyptu ríkisvíxla og stystu ríkisskuldabréfin í stórum stíl, og eru nú langsamlega stærstu eigendur þessara eigna.

Sjálfbærniskussar horfa fram á þyngri fjármögnun
Þegar búið er að koma reiðu á ESG-upplýsingagjöf fyrirtækja, litamerkja þau og lánasöfn bankanna með, má gera ráð fyrir að bankarnir setji aukinn þrýsting á fyrirtæki í lánasöfnum þeirra.

Ríkisbréfin skilja eftir sig stórt kolefnisspor í lánasöfnum bankanna. Í sjálfbærniuppgjöri Landsbankans fyrir árið 2021 kom fram að losun vegna skuldabréfa hefði verið nærri tvöfalt meiri en öll fyrirtækjalánin til samans.

Aðferðafræðin við útreikning á kolefnislosun ríkisbréfa er enn í þróun og inniheldur líklega töluvert af tvítalningum. Það er ástæðan fyrir því að Íslandsbanki og Arion banki hafa beðið með það að birta útreikninga fyrir þennan flokk.

En hvað sem því líður er ljóst að ríkisbréfin vega þungt í græna bókhaldi bankanna. Eftir því sem keppnin um grænasta lánasafnið harðnar – það er hugmyndin að baki sjálfbærnireglunum – kunna bankarnir að líta til annarra kosta við lausafjárstýringu.

Umfjallanir