Eggert Þröstur Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands, segist ekki eiga von á því að hlutdeild sérhæfðra lánasjóða í fyrirtækjaskuldum aukist mikið frá því sem nú er.
„Mér þykir langlíklegast miðað við þróunina undanfarin ár að hlutfallið verði áfram á svipuðum stað á næstu árum," segir Eggert í samtali við Hluthafann.
Ritið Fjármálastöðugleiki var gefið út fyrr í þessari viku samhliða yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar en þar var sérstaklega fjallað um sérhæfða lánasjóði og hlutdeild þeirra í fyrirtækjaskuldum.
Eins og rakið er í Fjármálastöðugleika búa bankar við strangara eftirlit og regluverk en önnur fjármálafyrirtæki, sem veldur kostnaði og dregur úr arðsemi. Þetta getur leitt til regluverkshögnunar (e. regulatory arbitrage) sem felur í sér að hefðbundin bankastarfsemi á borð við útlán leitar frá bönkum til annarra aðila sem lúta ekki eins ströngu regluverki. Þar koma sérhæfðu sjóðirnir inn í myndina.
