Beint í umfjöllun

„Dýrasta skip Íslandssögunnar“ selt til Norðmanna

Polarsyssel hefur þjónustað sýslumannsembættið á Svalbarða í meira en tíu ár. Photo by James Padolsey / Unsplash

Havila Holding, fjárfestingafélag sem er í eigu norsku Sævik-fjölskyldunnar, hefur fest kaup á skipinu Polarsyssel, sem var í eigu Fáfnis Offshore og sagt „dýrasta skip Íslandssögunnar“ þegar það var sjósett árið 2014.

Polarsyssel kostaði meira en fimm milljarða króna og var smíðað til þess að þjónusta olíu- og gasborpalla á norðurslóðum. Fáfnir Offshore var á þessum tíma með annað stærra skip í smíðum, Fáfni Viking, og batt vonir við að gera út 3 eða 4 skip.

Verkefnum fyrir olíuvinnsluskip fækkaði hins vegar verulega eftir að olíuverð féll snarpt sumarið 2014. Stærra skipið fékkst aldrei afhent eftir að norska skipasmíðastöðin Hav­yard rifti samningnum við Fáfni Offshore og til að tryggja tekjur af Polarsyssel var gerður samningum við sýslumannsembættið á Svalbarða.

Polarsyssel hefur í meira en tíu ár gegnt margvíslegu hlutverki fyrir sýslumannsembættið, svo sem landhelgisgæslu og birgðaflutningi, og mun halda því áfram til ársins 2031 samkvæmt þjónustusamningi.

Á tímabilinu hefur Fáfni Offshore haft stöðugar tekjur, skilað nokkuð stöðugum hagnaði og náð að minnka skuldir. Reksturinn hefur verið í höndum Havila, sem nú hefur gengið frá kaupum á skipinu.

Tveir hluthafar; Sjávarsýn, sem er fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, og Akur fjárfestingar, sem er framtakssjóður í stýringu Íslandssjóða, fara hvor með ríflega 37 prósenta hlut í Fáfni Offshore. Þriðji hluthafinn er Hlér, fjárfestingafélag á vegum Guðmundar Ásgeirssonar, sem er yfirleitt kenndur við Nesskip.

Umfjallanir