VaxtaTækifæri, skuldabréfasjóður í stýringu Akta, bar höfuð og herðar yfir aðra skuldabréfasjóði sem ætlaðir eru almennum fjárfestum á síðasta ári. Hann skilaði 17,8 prósenta ávöxtun á árinu en til að setja það í samhengi við hina innlendu skuldabréfasjóðina sem fyrirfinnast á markaði – þeir eru 38 talsins – þá skilaði ríkisbréfasjóðurinn, sem lenti í öðru sæti listans og er einnig í stýringu Akta, 12,4 prósenta ávöxtun. Ávöxtun annarra var á bilinu 5,5-10,1 prósent.
Uppistaðan í eignasafni VaxtaTækifæris eru alla jafna fyrirtækjaskuldabréf en sjóðurinn hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og færir sig ört á milli ríkisskuldabréfa og fyrirtækjaskuldabréfa. Fannar Örn Arnarsson, sem stýrir VaxtaTækifæri, segir að umframávöxtun sjóðsins á árinu megi fyrst og fremst rekja til virkrar stýringar og þeirrar greiningarvinnu sem fer fram innan Akta.
„Í upphafi ársins hafði skuldabréfamarkaðurinn verulegar áhyggjur af fjármögnun ríkissjóðs vegna framþungrar útgáfuáætlunar og stöðunnar í Grindavík. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa umtalsvert og markaðurinn var nokkuð svartsýnn,“ segir hann.